Thursday, April 20, 2017

Ölframleiðsla á Eyrarbakka 1926 BAKK-ÖL

Sigurður Þórarinsson frá Vegamótum á Eyrarbakka, hafði undirbúið sig til að takast á hendur verzlunarstörf. Nám hafði hann stundað í Flensborg, sem þá var eitt helsta menntasetur á Íslandi.

Sigurður hafði mikinn hug á að koma sér upp verzlun og hafði í því skyni aflað sér margs konar sambanda. Reyndar var hann þegar byrjaður að höndla, þó í smáum mæli væri. Ýmislegt var þá á döfinni og gerði Sigurður m.a. tilraunir með þurrkun þara í bakaríinu hjá mági sínum, Andersen. Var þá um að ræða joðvinnslu úr þara. Einhver sýnishorn mun hann þegar hafa verið búinn að senda út.

Tilraunir með hvítölsgerð hóf Sigurður í kjallara Vesturbúðarinnar og munu þær tilraunir hafa gefið góðan árangur. Skyldi nú hafin ölgerð í stórum stíl. Flöskumiðar voru prentaðir og allt undirbúið sem bezt. Hugsunin var að selja ölið á þriggja pela flöskum.

Á þessum árum var fé ekki á lausu og því var það að Sigurður ákvað nú að róa eina vertíð enn, en það skyldi vera sú síðasta, áður en fyrirtækið færi fyrir alvöru af stað.
Það varð orð að sönnu, að vertíðin varð sú síðasta, en það varð heldur ekkert úr því að fyrirtækið færi af stað.
Sigurður réði sig á vélbátinn Sæfara, sem fórst á innsiglingunni þann 5. apríl 1927, með allri áhöfn, að mörgum Eyrbekkingum ásjáandi.
Þeir munu margir, er velt hafa því fyrir sér, hvernig á þessum ölmiðum standi og hér hafa þeir þá svarið að nokkru, þó sjálfsagt mætti skrifa um það lengra mál.

Ó.[skar] M.[agnússon]


(Úr blaðinu Suðurlandi, laugardaginn 25. október 1969.)

No comments: