Thursday, April 20, 2017

Uppnefni fyrr á tíð

Það hefur löngum tíðkast hér við ströndina sem og víðar að gefa mönnum viðurnefni og eða gælunöfn og jafnvel stundum uppnefni. Sumir eru kenndir við húsin, starfið, mæður, maka eða önnur einkenni. Þannig voru menn þekktir sem t.d. Siggi-skó, Jón-kaldi, Jón-halti, Gunnsi í Gistihúsinu, Sæmi á Sandi, Kalli á Borg, Bjadda á Sæfelli, Tóta Kristins, Inga Lalla, Reinsi Bö, o.s.fr.v. Til forna þótti mikil upphefð í viðurnefnum eins og alkunna er, t.d. Skalla-Grímur, Eiríkur-rauði o.s.frv. En allt frá þjóðveldisöld hafa nafngiftir af þessum toga verið bannaðar samkvæmt Íslenskum lögum. Um það mál segir svo í Grágás: „Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi áður, og varðar það fjörbaugsgarð,(3 ára útlegð) ef hinn vill reiðast við.

Á héraðsþingi sem haldið var á Stokkseyri 19. júní  1704 kom upp slíkt mál. Þannig hafði sr. Halldór Torfason verið kallaður Brúsi, en kona hans Þuríður Sæmundsdóttir, kölluð Lúpa; lögréttumaðurinn Jón Gíslason nefndur Harðhaus; lögréttumaðurinn Brynjólfur Hannesson kallaður Stúfur; Kvinna Jóns Guðmundssonar í Hólum, Guðný Sigurðardóttir, Langatrjóna; Þorlákur Bergsson á Hrauni Snarkjaftur; Helga Benediktsdóttir á Hrauni Ígrá; Jón Guðmundsson á Skipum Rosi; hans kvinna, Ingiríður Magnúsdóttir, Svingla; hans sonur, Hafliði, Stóri-Blesi; hans sonur annar, Páll, Minnavíti; Sigurður Bergsson á Hrauni Merarson; kona lögréttumannsins Þorsteins Eyjólfssonar, Svanhildur Sigurðardóttir, Lóðabytta; kvinna Þorláks Bergssonar á Hrauni, Guðný Þórðardóttir, Langvía; kvinna Sigurðar Jónssonar í Einarshöfn, Ingunn Brynjólfsdóttir,Ígrá.

Þeir sem voru kallaðir fyrir þingið vegna þessara uppnefna voru: Gísli Pálsson umferðardrengur í  Stokkseyrarhreppi  19 ára, Ófeigur Jónsson í Skúmsstaðahverfi, Kári Jónsson í Einarshöfn, Brandur Sveinsson í Skúmsstaðahverfi, (Jón Eyjólfsson í Stokkseyrarhverfi, var fjarverandi) og Ormur Þórðarson í Traðarholti, en þeir neituðu að hafa fundið upp þessi viðurnefni. En fyrrnefndur Gísli Pálsson sagðist hafa heyrt úti á Eyrarbakka í nálægð kaupmannanna beggja, Páls Christianssonar Birck og Rasmusar Hanssonar Munch, ásamt velbyrðugs herra amtmannsins fullmegtugs, Seigr Pauls Beyer, framsagt hafa eftir þeirra spurn og eftirleitni, að yfirkaupmaðurinn Páll Christiansson hefði verið kallaður Ólöfarstreðill, en undirkaupmaðurinn Rasmus Munch Halldórustreðill. Frambar þá Gísli opinberlega, að haustið áður, 1703, þá Eyrarbakkaskip hafi verið afsiglt, hafi Kári Jónsson, Ófeigur Jónsson, Brandur Sveinsson og hann sjálfur verið allir til samans við stofugluggann á Skúmsstöðum, og sagðist  hann þá heyrt hafa, að þeir hafi þar um hönd haft nafnagiftur nokkrar af þeim, sem hér eru nefndar.

 Það var sameiginleg ályktun dómsmanna,( Vigfús Hannesson mppr. Jón Gíslason m. e. h. Þorsteinn Eyjólfsson e. h. Brynjólfur Hannesson m. e. h. Jón Guðmundsson m. e. h. Halldór Þórðarson e. h. Guðmundur Finnbogason e. h.) að þessi þingmanna rómur sé með eiði staðfestur á þann máta, að tveir sverji, en átta sanni, að svo hafi þeir heyrt, en viti ei, hvort satt sé, eftir 25. Cap. Mannhelgis. (Jónsbók).

 Brynjólfur Jónsson og Sturlaugur Ólafsson, gerðu eið: „Til þess legg ég Brynjólfur Jónsson og ég Sturlaugur Ólafsson hönd á helga bók og það segi ég guði almáttugum, að ég hef heyrt þessum mönnum hér í Stokkseyrarhrepp eignað, að upp með nafnagiftur komið hefðu: Gísli Pálsson umferðardrengur í Stokkseyrarhrepp, Ófeigur Jónsson í Skúmsstaðahverfi, Kári Jónsson í Einarshöfn, Brandur Sveinsson í Skúmsstaðahverfi, Jón Eyjólfsson í Stokkseyrarhverfi og Ormur Þórðarson í Traðarholti, en ei veit eg, hvað satt er. Og að so stöfuðum eiði sé mér guð svo hollur sem ég satt segi, en gramur, ef eg lýg". Þennan eið sönnuðu átta menn, nefnilega: Jón Nikulásson, Jón Arnoddsson, Erlendur Benteinsson, Jón Magnússon, Magnús Ólafsson, Bjarni Jónsson, Þorkell Jónsson og Ásgrímur Eyvindsson.

Fengu hinir eiðvotta og höfðu 6 vikur til að halda eiðinn:  Þessir menn eru nefndir Ófeigi Jónssyni til eiðvættis: Bjarni Jónsson í Háeyrarhverfi, Snorri Nikulásson í Nesi, Einar Jónsson á Skúmsstöðum og Gísli Gunnarsson á Hrauni. Hafi Ófeigur tvo af þessum, sé sjálfur þriðji, og tvo fangavotta. — Kára Jónssyni eru þessir menn til eiðvættis nefndir: Arnór Gíslason í Einarshöfn, Hinrik Vigfússon í Einarshöfn, Sigurður Björnsson í Skúmsstaðahverfi og Bárður Guðmundsson á Háeyri. — Ormi Þórðarsyni í Traðarholti eru nefndir þessir menn til eiðvættis: Páll Jónsson á Skipum, Bergur Sturlaugsson á Kotsleysu, Jón Þorkelsson í Stokkseyrarseli og Helgi Jónsson í Hraunshverfi. — Brandi Sveinssyni eru þessir menn til eiðvættis nef ndir: Kolbeinn Jónsson á Baugsstöðum, Vigfús Þórðarson í Traðarholti, Ásbjörn Sighvatsson í Skúmsstaðahverfi og Árni Jónsson á Kalastöðum, hafi tvo af þessum, sjálfur hinn þriðji og tvo fangavotta (svo sem hinum hér fyrrskrifuðum mönnum er tilsagt að gjöra), þá hann sína frómleiks vitnisburði fengið hefur hjá heiðurlegum sr. Snorra, sem fyrr er á minnst.
Heimild: Blanda 1944/Guðni Jónsson.

No comments: