Thursday, April 20, 2017

Af sjósókn Eyrbekkinga fyrr á tíð.

Á miðri 18.öld stunduðu einungis heimamenn sjósókn á Eyrarbakka og voru til þess aðalega brúkaðir smábátar. Á vertíðinni 1762 gengu einungis 8 skip til róðra í öllum hreppnum sem þá náði frá Óseyrarnesi að Baugstöðum. Þessi fjöldi skipa hélst  svipaður næstu áratugi. Árið 1765 ákvað danska stjórnin að hafa vetursetumann á Eyrarbakka til að kenna útgerðarmönnum fisksöltun og annast um hana.  Árið 1785 voru tveir áttæringar, þrír sexæringar og tvö fjögra manna för gerð út í hreppnum.  Á  þessum skipum voru 40 innansveitarmenn, 16 utansveitarmenn og 6 ungmenni. 1787 fer verslun með fisk vaxandi og í kjölfar aukinnar eftirspurnar fór fiskverð hækkandi. Útgerð þótti nú arðvænleg og fór skipum ört fjölgandi á Bakkanum. 1893 voru yfir 100 skip og bátar í hreppnum, mest sexæringar.

Vertíðin byrjaði jafnan á kyndilmessu 2. febrúar og lauk henni á Hallvarðsmessu 15. maí. Það var venja sjómanna að tvíróa. Þá var róið að morgni og landað undir hádegi, þá var beitt 200 öngla línulóð og síðan tekinn seinni róðurinn og landað um nónbil. Það var síðan Guðmundur Ísleifsson á Háeyri sem tók það til bragðs að hafa sérstaka beitningamenn í landi og gat því róið 4-6 skipti á dag ef veður leyfði. Fram til 1886 var svo mikið kapp í formönnum að lagt var út í myrkri til að ná bestu miðunum og var það ekki áhættu laust, en þann 15. apríl 1886 samþykkti sýslunefnd að ekki skildi róið fyrr en „sundbjart væri“  (Sundbjart er þegar varðan og tréð sést af sundunum). Þá voru kosnir þrír menn til að flagga þegar næginlega bjart var orðið. (Stokkseyringar tóku upp á að nota þokulúður í stað flöggunar). Árið 1800 lét L. Lambertsen gera tilraunir með netaveiðar á Eyrarbakkamiðum en gekk það brösuglega. Handfæri voru notuð fram til 1898 en þá voru veiðar með lóðalínur orðnar almennari.

No comments: