Thursday, April 20, 2017

Guðmundur Ísleifsson og "Dansgyðjan"

Skaftfellingur hélt uppi strandsiglingum með suðurströndinni um langt skeið.
Árið 1890 hafði hinn þekkti formaður Guðmundur Ísleifsson á Háeyri, skip á leigu sem flutti  vörur til verslunar hans hér á  Eyrarbakka. í  leiguskilmálunum var það tekið fram, að hann mætti nota skipið til flutninga meðfram  ströndum  landsins og  um sumarið lagði hann upp  vörur í Vík í Mýrdal, til sölu þar  um  kauptíðina og til hægðarauka fyrir Skaftfellinga. Guðmundur var sjálfur  á  skipinu sem hét „Terpsichore“ (Dansgyðjan) og var frá Borgmundarhólmi, en skipstjórinn hét Bayer að eftirnafni. Hélt Guðmundur svo  austur með  ströndinni, að  lokinni verslun í Vík, til þess  að athuga, hvort mögulegt væri að flytja  vörur sjóleiðis til Öræfa. Þegar þar kom var blíðviðri og stilltur sjór. Öræfingar  komu út að  skipinu á alls tórum  róðrabát og tóku í  hann  vörur, sem þeim farnaðist vel með í  land. Var þetta í fyrsta  sinn, sem þeir fengu  vörur sjóleiðis og voru þeir því afar kátir.
Eftir þetta hélt Guðmundur áfram verslun í Vík  og  mun það hafa flýtt fyrir, að  reglulegar samgöngur þangað sjóleiðis  komust á.  En það var M/s „Skaftfellingur“, sem  um langt  skeið, hélt uppi  strandferðum á áðurnefndu svæði, og greiddi úr örðugleikum sýslubúa til viðskipta sem og önnur vöruflutningaskip, á þessum tímum sem vegsamgöngur voru engar.

Heimild: Guðmundur Ísleifsson, Ægir 1934

No comments: