Sunday, April 23, 2017

Enskur togari kafsiglir færeyska skútu úti fyrir Þorlákshöfn

"Katríne" sökk á aðeins tveim mínútum.


Laugardaginn 17.mars 1928 lá færeyska skútan „Katrine" frá Þórshöfn að fiski úti fyrir Þorlákshöfn. Öll skipshöfnin var uppi nema skipstjórinn, sem var að vinnu lestinni. Veður var gott, stilt og bjart. Sá nú skipshöfnin, að togari kom og stefndi beint á skútuna. Hugðu Færeyingarnir, að hann myndi vilja hafa tal af þeim. Kölluðu þeir þá á skipstjóra og kemur hann upp. En áður en nokkuð verður gert til að forða árekstri, rennir togarinn á skútuna framan við framsiglu og gengur á að giska fjögur fet inn í skrokkinn á henni. Skipshöfnin á skútunni komst upp á togarann, en tveim mínútum eftir að áreksturinn varð, sökk „Katarine". Togarinn, sem var frá Grimsby" og hét „Soranus" og var á heimleið og vildi flytja Færeyingana til Þórshafnar, en færeyski skipstjórinn kaus heldur að hann og skipshöfn hans yrði flutt til Reykjavíkur. Þegar áreksturinn varð, var aðeins einn maður á stjórnpalli á enska togaranum, en það var bátsmaðurinn.

„Katarine" var 90 smálesta vélarskip; skipstjórinn átti hana sjálfur. Tuttugu og einn maður voru á skipinu. Fullyrðir skipshöfnin, að ef einhverjir hefðu verið undir þiljum, þá myndu þeir hafa farist.
Heimild: Ægir 1928

No comments: