Undir lok 18.
aldar, þá er fyrrum stýrimaður, Niels Lambertsen var orðinn kaupmaður á
Eyrarbakka voru hjá honum tveir búðarsveinar, þeir Sveinn Sívertsen og Sigurður
stútent Sívertsen (Magnússon). Christine
var kona Lambertsens, er jafnan var kölluð „Stína“ af heimamönnum. Sonur þeirra
var Lambertsen yngri, er síðar var með verslunina. Skip hans „Charlotte Sopie“
kom hvert sumar og venjulega fór Lambertsen
með skipinu aftur til Kaupmannahafnar að hausti. Skildi hann konu sína
þá eftir á Bakkanum til að gæta eigna sinna.
Eitt sumarið kom
Lambertsen ekki með skipinu og var sagður liggja fyrir dauða sínum í
Kaupmannahöfn. Stína hafði átt vingott með Sveini þá er Lambertsen var utan og
sagðist nú vilja lofast honum ef svo
færi að hún yrði ekkja. Brátt varð Stína ólétt og var ráð þeirra að leyna þessu
og fá barninu sýndarforeldra. Sigurður stútent var með í ráðabruggi þessu og
leituðu þau til Einars snikkara Hannessonar á Skúmstöðum, sem hafnaði þeirra
málaleitan. Þvínæst var leitað til Snorra bónda Gizurarsonar á Hólum í Flóa og
konu hans Katrínar Eiríksdóttur og tókust með þeim samningar.
Þegar barnið var fætt fóru þau Stína og Sigurður
ríðandi að Hólum og skildu barnið þar eftir hjá þeim hjónum. Elín i Gaulverjabæ
var þá ljósmóðir í sveitinni og var hún kölluð til. Hafði
hún barnið heim með sér samkvæmt venju hennar, en áður en barnið komst aftur að
Hólum hafði málið komist upp. Dag nokkurn hafði Eiríkur snikkari komið í búðina
til Sigurðar Sívertsen og orðið missáttur
um viðskipti sín við hann. Búðin var þá full af fólki er Eiríkur lét
málið uppiskátt í bráðræði sínu.
Þegar svo var komið
varð að ráði að Sigurður stútent gengist
við barninu, en það var drengur nefndur Páll. Drengurinn fékk strax viðurnefnið
„Kúts-Páll“. Það hafði æxslast þannig að ráð Sigurðar til að koma barninu óséðu
að Hólum var að setja það í vatnskút og reið hann með það á söðli íklæddur
kvennmansklæðum en Stína reið á eftir. Er þau fóru framhjá Brattholti mættu þau
bónda þar Hákoni Þorgrímssyni og heyrðist honum barnsgrátur koma úr kútnum, en
til að verða ekki að aðhlátursefni um allar sveitir, sagði hann ekkert um
ferðamenn þessa og barnsgrátinn úr vatnskútnum fyrr en málin höfðu komist í
hámæli.
Varð þessi saga mörgum að yrkisefni og er til
a.m.k. ein vísa svohljóðandi:
Öldin teit það frétti fróð,
fyrr það vissi enginn,
að bóndakona og faktors fljóð,
fætt hafa sama drenginn.
Kúts-Páll settist
að í Gullbringusýslu og átti marga afkomendur.
Heimild: Saga
Þuríðar formanns.
No comments:
Post a Comment