Thursday, April 20, 2017

Aðdragandi byggðar á Eyrarbakka

Hásteinn Atlason kemur frá Noregi og varpar stokkum sínum fyrir borð. Inghólsfjall í bakgrunni.
Þeir fóstbræður Ingólfur Arnarson og Leifur Hróðmarsson, þá ungir menn,  fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum. Synir hans hétu Hásteinn, Hersteinn og Hólmsteinn og voru þeir vígdjarfir og fór þeim ætíð vel í hernaði.  Er þeir félagar komu heim eftir velheppnaða herför um norskar sveitir ákváðu þeir að herja á ný næsta sumar. Um veturinn gerðu fóstbræður veislu handa þeim jarlsonum. Þar strengdi Hólmsteinn heit um að hann skyldi eiga Helgu systir Ingólfs, eða enga konu ella. Menn létu sér fátt um finnast, nema Leifi sem roðnaði við, enda bar hann sjálfur hug til Helgu. Þegar þeir skildu að borðum um síðir var fátt um kveðjur milli Leifs og Hólmsteins.
Næsta vor bjuggust þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur (Hjörleifur) til hernaðarins og héldu til móts við þá jarlsyni  Herstein og Hólmstein sem fyrr var ákveðið og hittust þeir við Hísargafl. Sló þá þegar í brýnu milli Leifs og Hólmsteins og liðsmanna þeirra. Er barist höfðu um hríð kom Ölmóður gamli Hörða-Kárason er var frændi Leifs og hélt hann þeim Ingólfi liðveislu. Féll þá Hólmsteinn, en Hersteinn flúði við svo búið. Fóstbræður héldu þá í hernaðinn sem fyrr var ætlað.
Um veturinn fór Hersteinn, að þeim fóstbræðrum ásamt mönnum sínum og hugðust drepa þá. Leifi hafði borist njósn af ferð þeirra og gerði hann honum fyrirsát. Varð þá háð orrusta mikil og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru menn þá sendir á fund Atla jarls og Hásteins til að bjóða sættir. Náðust sættir um að þeir fóstbræður gjaldi eignir sínar til þeirra feðga. Varð það til þess að að þeir Ingólfur og Hjör-Leifur fluttu búferlum til eyjar  í norðurhöfum er þeir höfðu fregnað af og nefndu „Ísland“. (Hjörleifur féll þar fyrir þræls hendi)
Liðu nú tímar þá er Haraldur gullskeggur konungur í Sogni og mágur Atla jarls hins mjóva gaf barnabarni sínu Haraldi unga nafn sitt og ríki. Haraldur ungi var sonur Þóru dóttur gullskeggs og Hálfdáns svarta konungs í Upplöndum. Þá er Haraldur ungi er andaður bar ríkið undir Hálfdán svarta, en hann setti þá Atla jarl hinn mjóva yfir það. Þá er Þóra lést fékk Hálfdán Ragnhildi dóttur Sigurðar-hjartar fyrir konu og var sonur þeirra Haraldur hárfagri.
Enn líða tímar þar til Haraldur hárfagri mægist við Hákon jarl Grjótgarðsson og leggur undir sig Noreg. Fékk þá Hákon valdstjórn yfir Siganfylki í trássi við Atla jarl hins mjóva. Drógu þá báðir jarlarnir til liðssöfnunar og þreyttu kappi um völdin. Á Stafanesvogi á Fjöllum mættust herir þeirra í mikinn bardaga. Féll þar Hákon jarl en Atli jarl hinn mjóvi særðist til ólífis. Hásteinn hélt þá ríkinu um sinn, en þar kom að Haraldur dró mikið lið móti honum.  Hásteinn hörfaði undan herjum Haraldar og lét búa skip sitt skjótt til utanfarar. Var það ráð Hásteins að sigla til Íslands og tók hann land er hann nefndi Stokkseyri, en landnám hans náði milli Ölfusár og Rauðár. Hásteinn átti þá að konu Þóru Ölvisdóttur og tvö börn, Ölvir og Atla. Hallsteinn var mágur Hásteins og lét hann brátt búa skip sitt fólki og fénaði til Íslands. Hásteinn gaf honum þá af landnámi sínu frá Hraunsá að Ölfusá, nefnt Eyrarbakki. Kona Hallsteins var Sóveig hin fagra og bjuggu þau í Framnesi. Þeirra sonur var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti, hans son Þorbjörn á Framnesi. 

Atli Hásteinsson varð ríkur maður og líkur í mörgu lagi frændum sínum en særðist til ólífis í bardaganum um Víðiskóg Böðvars þræls.

No comments: