Skyndilega er
vetrarkyrðin rofin og friðsælt þorpið umbreytist í vettvang óhugnanlegrar
atburðarrásar sem leiðir til umsátursástands lögreglu og víkingasveitar.
Undankomuleiðum er lokað í skyndi, lögreglubílar stilla sér upp á gatnamótum og
svartklæddir menn öllu viðbúnir húka þar í skjóli, rétt eins og í hasarmynd frá
Hollywood.
Þessi atburðarrás
hófst með því að eldri kona, en skörungur þó, ók bifreið sinni með mestu
makindum inn á Eyrarbakka ásamt erlendum gesti sem hún hugðist fræða um
fornafagra húsagerðarlist Eyrbekkskra meistara og undur hinnar íslensku náttúru
sem umvefur þetta sögulega þorp. Þegar hún er stödd á móts við fangelsið Litla-Hraun,
stendur þar maður við innkeyrsluna og veifar. Konan stoppar og skrúfar niður
hjá sér rúðuna en ókunni maðurinn segir „Það er neyðarástand, það er
neyðarástand. Ég verð að fá að hringja í lögregluna.“ Hún réttir manninum
símann sinn og hann hringir- spyr um mann og annann- en varð einskins ágengt.
Skilaði hann þá símanum, en snaraðist því næst í aftursæti bifreiðarinnar og
krafðist þess að verða ekið hið bráðasta á lögreglustöðina á Selfossi.
Konan ók af stað en
sagðist ekki vera á leiðinni á Selfoss. Hún væri með gest. Útlending í
skoðunarferð. Maðurinn bað aftur um símann og skipaði konunni að aka af stað.
Konan ók í hægðum sínum ásamt föruneyti um þorpsgötuna. Ókunni maðurinn hringir
í neyðarlínuna 112 og vill fá samband við ákveðinn aðila, en hann lendir stax í
deilum við samtalsmann sinn og segir ókunni maðurinn þá skindilega „Ég er með
tvo gísla í bílnum, ég vil samband strax.“
Gaf hann í skyn að hann væri vopnaður, þó staðreyndin væri önnur. Hafði
hann í hótunum að ráðast gegn lögreglu ef hún freistaði þess að ná til hans.
Á meðan konan
dólaði þorpsgötuna komu lögreglubílar aðvífandi ásamt víkingasveitinni. Ókunni
maðurinn hótaði konunni lífláti ef hún stöðvaði fyrir lögreglunni. Konunni var
þá nóg boðið og stöðvaði hún bílinn. „Þú drepur engan mann í þessum bíl. Nú ferð þú út“. svaraði hún, en í sömu svifum
var bifreiðin umkringd víkingarsveitarmönnum. Ókunni maðurinn gafst upp. Hann
hafði verið með æfingaprógram í sjálfsvörn fyrir fangaverði á Litla-Hrauni, en
núna var hann leiddur í járnum inn í lögreglubíl.
Þetta mun hafa gerst fyrir nokkrum árum.
No comments:
Post a Comment