Thursday, April 20, 2017

Sigríður í Sölvholti var engin lúfa

Jón hét bóndi í Sölvholti i Flóa Bergsteinsson bónda á Litla-Armóti. Sigríður hét kona hans Brynjólfsdóttir lögréttumanns á Hrauni á Eyrarbakka, er fyr var kapellán á Breiðabólsstað í Fijótshlið Þórðarsonar bónda á Steindórsstöðum Brynjólfssonar. Systir Sigriðar var Sigriður yngri kona Páls Arnbjörnssonar á Dufþekju og móðir Gruðnýjar, móður Árna Árnasonar í Vestri-Garðsauka, föður Jakobs í Auðsholti og systkina hans. Þau Jón og Sigriður í Sölvholti áttu 2 börn, Brynjólf og Steinvöru. Bjó Sigriður með þeim, eftir að hún missti mann sinn 1758. Voru þau hjá henni, meðan hún lifði og giftust ekki. Hún dó 1792, 78 ára, og sama ár dó Brynjólfur sonur hennar, 53 ára.

Það er sagt frá Sigriði, að hún hafi bæði verið kjarkmikil og vel viti borin, en nokkuð ófyrirleitin í orðum, ef svo bar undir. Sölvholt var stólseign. Hannes biskup heyrði Sigríðar getið og langaði til að sjá hana. Og eitt sinn, er hann var á ferð nálægt Sölvholti, reið hann þar heim með sveinum sínum. Berja þeir á dyr og kemur Sigríður sjálf til dyra. Segja þeir við hana: „Þetta er ungi biskupinn okkar, hvernig líst þér á hann ?" Hún virðir biskup fyrir sér og svarar svo: „Hann er fallegur; en þó er sami skituliturinn yfir honum og ættinni. En hvert er erindið, ég vil fá að vita það strax. Bændafólk eins og ég, sem öllu á út að svara, verður að nota timann til að vinna og má ekki slóra hjá gestum." „Ég ætlaði,“ segir biskup, „að tala um það við þig, að ég er að hugsa um að hækka afgjaldið af jörðinni; það er of lágt að tiltölu við aðrar jarðir." „Jæja," seigir Sigríður, „tarna laumaðist úr þér, þó þú sért fallegur! Aldrei fór faðir þinn fram á þetta, og var hann kallaður Finnur ,níski'." Biskup lét þetta tal þá falla. Hún spurði, hvort þeir vildu ekki drekka. Þeir þáðu það. Hún snaraðist inn í mjólkurhús, renndi trogi, hrærði skyri út í rjómann og færði þeim; silfurskeiðar lét hún fylgja. Féllst þeim vel á. Meðan biskup mataðist, gekk Sigríður að honum, tók í hempufat hans, hélt þvi saman við sína hempu og sagði: „Það er grófara efnið í minni hempu en þinni." En á meðan laumaði hún 8 spesíum í vasa biskups, og fann hann þær, er hann var farinn. Eftirgjaldshækkunina nefndi hann aldrei oftar.


Blanda 1923/Brynjúlfur Jónsson eftir frú Steinunni Hannesdóttur á Eyrarbakka. 

No comments: