Fjórir hásetar, er við vinnu voru á þilfari, urðu fyrir vírunum og stórslösuðust
Brynjólfur Guðjónsson var annar þeirra er lést. Hann var
fæddur að Litlu-Háeyri á Eyrarbakka 19. nóvember 1915 og bróðir Sigurðar
Guðjónssonar á Litlu-Háeyri er lengi var skipstjóri á Kveldúlfstogaranum
Skallagrími. Brynjólfur var kornungur, er hann réðist á togara. Fyrst fór hann
á Þórólf, til Kolbeins föðurbróður síns, en er Sigurður bróðir hans varð
skipstjóri á Skallagrími árið 1936, réðist hann þangað og var þar æ síðan.
Brynjólfur átti hlut í litlum bát á Eyrarbakka, Hafsteinn ÁR-201 sem róið var á
í frístundum. Brynjólfur, kvæntist 1945 Fanneyju Hannesdóttur og áttu þau eitt
barn. Togarinn Skallagrímur, fór í eina af sínum hefðbundnu veiðiferðum sumarið
1946. Í þessari ferð var komið við á Patreksfirði og var settur þar í land
maðurer fengið hafði blóðeitrun, en skipið hélt svo áfram og byrjaði að toga út
af Önundarfirði. Laugardagsmorguninn 6. júlí var botnvörpungurinn Skallagrimur
að veiðum undan Barða. Um hálf ellefu leytið festist varpan skyndilega í botni
og rifu vírarnir upp síðupollann stjórnborðsmegin. Fjórir hásetar, er við vinnu
voru á þilfari, urðu fyrir vírunum og stórslösuðust, en Brynjólfur var einn
þeirra. Reynt var að hjúkra þeim, svo sem kostur var á um borð. Jafnskjótt og
pollinn hafði losnað var höggvið á vírana og stefnt með fullri ferð til
Flateyrar og var komið þangað rétt fyrir hádegi. Um það bil, er skipið var að
koma i höfn, andaðist Brynjólfur Guðjónsson, en hann hafði aldrei komist til
meðvitundar frá því hann slasaðist, en annar hinna slösuðu háseta lést einnig
skömmu síðar.
Heimild: brim.123.is
No comments:
Post a Comment